Í fremstu víglínu frétta á sjónvarpinu 1986-1989 ... [ I & II ]

Ingvi Hrafn Jónsson lét verða eitt sitt fyrsta verk að hringja í Eddu Andrésdóttur og Hall Hallsson þegar tilkynnt var að hann yrði fréttastjóri Sjónvarps á aðventu 1985. Ég var blaðamaður á Morgunblaðinu og leið afar vel meðal bestu blaðamanna Íslands. Ég tók mér tíma til umhugsunar, þáði starfið og vann þriggja mánaða uppsagnarfrest á Mogga. 1986 var árið þegar ríkiseinokun ljósvakans var brotin á bak aftur. Ísland á tímamótum þau þrjú ár sem ég var á Sjónvarpinu.
 
Ég fékk hrun Hafskips í fangið, hrun Útvegsbankans, hrun Sambandsins, klofning Sjálfstæðisflokksins, stofnun Borgaraflokksins. Ég var fyrir utan Sakadóm þegar sex Hafskipsmenn voru hnepptir í gæsluvarðhald 20. maí 1986. Einn af öðrum voru þeir leiddir fyrir Sakadóm. Ísland nötraði sem von var. Guðmundur Jaki Guðmundsson [1927-1997] beint úr flugi frá Ameríku kom til mín í sjónvarpssal 17. júní 1986, staðfesti að hafa þegið fé úr hendi Alberts Guðmundssonar [1923-1994]. Jakinn var hrakinn af þingi af kommaklíku Allaballa þegar ráðist var á veikan mann sem leitaði heilsubótar. Svo var friðarfundur Reagan og Gorbatsjov í Höfða í oktbóber 1986 þegar fréttastofa Ingva Hrafns vann eitt mesta þrekvirki íslenskrar fjölmiðlasögu.
 
ALBERT Í SJÓNVARPSSAL
 
Goðsögnin Albert var leiðtogi reykvískra sjálfstæðismanna; "larger than life" með bakið upp við vegg vegna Hafskipsmála. Albert ræddi ekki við fjölmiðla. Ég stillti mér upp í ráðuneytinu og sagði: “Albert á bak við þessar luktu dyr, neitar að tala við fréttastofu.“ Slíkt var óþekkt í Sjónvarpi. Ráðherradyrnar opnuðust og Albert gekk út án þess að segja orð. Að kvöldi 24. mars 1987 var Albert hrakinn úr iðnaðarráðuneytinu. Albert kom til okkar Ingva Hrafns í sjónvarpssal að kvöldi, Þorsteinn Pálsson á sama tíma á Stöð 2 með yfirlýsingu um að Albert yrði ekki ráðherra í næstu ríkisstjórn. Skiptiborð Sjónvarps logaði og hundruð reykvíkinga þeyttu flautur fyrir utan Sjónvarpshúsið. Borgaraflokkur Alberts varð til og vann stórsigur í kosningunum 25. apríl 1987, XD hrundi. Þorsteinn gerði mikil mistök en okkur Ingva var kennt um klofning Sjálfstæðisflokksins!
 
NÝIR TÍMAR ...
 
Ágætur verkalýðsleiðtogi gaf tilskipun um að ég mætti ekki spyrja tiltekinna spurninga þegar hann mætti í sjónvarpssal. Ég svaraði engu en spurði samt. Verkalýðsleiðtoginn Benedikt Davíðsson [1927-2009] varð afar reiður og úthúðaði mér að loknum þætti. Ég svaraði engu en sýndi kurteisi. Matthías Bjarnason [1921-2014] viðskiptaráðherra klappaði ekki fyrir mér eftir snarpan þátt um hrun Hafskips. Yngvi Hrafn hafði lagt af þjónkun við pólitík. Séra Emil Björnsson [1915-1991] fréttastjóri tók hatt stjórnmálamanna þegar þeir mættu til viðtals. Séra Emil var annarar tíðar. Það voru nýir tímar sem við Ingvi Hrafn boðuðum en Sjónvarpið varð RÚV ropandi úr iðrum.
 
MIKILL ER HALLUR ...
 
Þjóðin fylgdist með hrunadansi Sambands íslenskra samvinnufélaga, stærsta fyrirtækis í sögu íslensks viðskiptalífs stofnað 1902. SÍS hafnaði á mínu borði eðli máls samkvæmt. SÍS Guðjóns B. Ólafssonar [1935-1993] öllum á óvart bauð í Útvegsbankann en endaði gjaldþrota. Hrun SÍS á allra vörum næstu misseri. Starri í Garði orti:
 
Mikill er Hallur, ef
á fáeinum kvöldum,
fær Sambandið afmáð
af sögunnar spjöldum.
 
 
[ II ]
 
"SJÓNVARPSTJARNAN & ÞJÓÐHETJAN"
 
Ég var með þjóðinni í fréttum og skák í einum mestu umbrotum Íslandssögunnar og einu stærsta augnabliki íslenskrar skáksögu þegar Jóhann Hjartarson vann goðsögnina Viktor Korschnoi [1931-2016]. Ég sagði fólkinu í landinu fréttir á kjarnyrtri íslensku þegar hrikti í stoðum þjóðfélagsins, aldrei voru bornar brigður á efnisatriði, aldrei “...kærður“ í ofsastormum minnar tíðar. Fjölskyldur komu saman fyrir framan Sjónvarpið: “Krakkar, Hallur Hallsson er með frétt,“ var kallað úr stofu.
 
Árin þrjú hermdi snillingurinn Jóhannes Kristjánnsson eftir mér á árshátíðum um allt land sem og snillingarnir í Spaugstofunni. Ég telfdi við Helga Ólafsson í þættinum “Á tali hjá Hemma Gunn.“ Ég lék fréttamann í "Börnum náttúrunnar," árið 1991 tilnefnd til Óskarsverðlauna!
 
SKÁKEINVÍGIÐ MIKLA Í ST. JOHN
 
Skákeinvígið mikla í St. John í Kanada þegar Jói Hjartar vann Korschnoi var risaviðburður. Ég stýrði beinum útsendingum og Jón L. Árnason stórmeistari greindi skákir. Í átta vikur frá 24. janúar til 23. mars 1988 fylgdist þjóðin með einvíginu af lífi og sál. Jóhann vann! Það eru ein óvæntustu úrslit skáksögunnar. DV sagði: ...Hallur er sjónvarpsstjarna og Jóhann þjóðhetja.“ Þann 9. apríl 1988 var Ingvi Hrafn rekinn. Það var sem hnefahögg framan í fólkið í landinu og okkur fréttamenn. Svokölluð Svefneyjamál Arnþrúðar Karlsdóttur stuðuðu elítuna. Ég safnaði stuðningsyfirlýsingum fréttamanna við Ingva en pólitískir fréttamenn höfðu önnur áform, svo sem Ingvi Hrafn upplýsti í bók sinni; "... og þá flaug hrafninn.“
 
VARAFORSETI ALÞINGIS SVIPTUR ÞINGHELGI
 
Frétt mín laugardagskvöld 8. október 1988 kom fólki í opna skjöldu þegar 2. varaforseti Alþingis var sviptur þinghelgi svo gefa mætti út ákæru vegna setu í bankaráði Útvegsbanka Íslands. “Hefði kosið aðra leið á spjöld sögunnar,“ sagði Jóhann Einvarðsson [1938-2012] þingmaður Framsóknar. “...Óskiljanlegt hvernig fréttin lak út,“ bætti hann við. Hæstiréttur hafði vísað Hafskipsmálum frá rúmu ári áður vegna vanhæfis Hallvarðar Einvarðssonar [1931-2016] ríkissaksóknara vegna Jóhanns bróður síns. Ég var með fjölmarga öfluga kontakta sem treystu mér; heimildamenn sem líklega enginn hefur nokkru sinni haft í sögu frétta.
 
ÓLI KR. Í OLÍS & JÓN BALDVIN
 
Þann 2. nóvember 1988 hófust tíufréttir með frétt minni um Óla Kr. Sigurðsson [1946-1992] í Olís þess efnis að Landsbankinn hygðist “...sparka Óla Kr. út úr Olís.“ Fréttin vakti rosalega athygli. Yfirtöku Óla á Olís hafði verið lýst sem “...kaupum aldarinnar.“ Óli blés til blaðamannafundar daginn eftir 3. nóvember 1988. Við tókumst í hendur. Tíminn lýsti fundi “...hávaðasömum“ þar sem reiður Óli Kr. þrátt fyrir allt þakkaði mér fyrir hækkun hlutabréfa í Olís! “Thank You Very Much.“ Síðar skrifaði ég sögu Olís; “Þeir létu dæluna ganga.“
 
Svo var það áfengisskandall Jóns Baldvins Hannibalssonar vegna fimmtugsveislu Bryndísar á Hótel Íslandi. Áfengiskaup Jóns Baldvins komu við sögu í málaferlum á hendur Magnúsi Thoroddsen [1934-2013] forseta Hæstaréttar vegna kaupa á 2.160 flöskum af áfengi á kostnaðarverði forréttindi elítunnar. Ég fékk nótur innan úr ÁTVR sem staðfestu úttektir JBH. En nýi fréttastórinn Bogi Ágústsson batt hendur mínar. Kerfið hafði yfirtekið fréttastofuna, rúvízk ritskoðun var hafin, pólitík tekið völd.
 
BOGI VEIFAR ÁMINNINGARBRÉFI
 
Þann 28. janúar 1989 hófst einvígi Jóhanns og Anatoly Karpov í Seattle, Washingtonríki. Karpov var of sterkur og vann einvígið á fimm vikum. Þegar ég mætti á fréttastofuna beið Bogi Ágústsson mín með áminningarbréf. Upplegg Boga var að reka helsta fréttamann Sjónvarps!!! Af hverju? ... Ég stóð upp, gekk út og kom ekki aftur inn á fréttastofu heldur tók boði Palla Magg og fylgdi Ómari Ragnarssyni yfir á Stöð 2. Svo furðulegt sem það er þá hefur Rúv skipulega bælt og falið sögulega arfleifð mína, þagað og þaggað. Þegar Rúv fagnaði 75 ára afmæli þá var ekki við talað manninn sem breytti fréttum Sjónvarps á Íslandi. Rúv er í dag ómennsk ríkislygaveita myrkurs og dauða með heimilisfesti á Glæpaleiti. Í föllnum heimi ræðst myrkrið jafnan á ljósbera, það er lögmál.
 

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og sextán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband