20.12.2024 | 15:23
Sögulegur árangur Víkings í Evrópu ...
Víkingar sýndu styrk sinn þegar þeir gerðu jafntefli í Linz 1-1 við Lask eitt besta lið Austurríkis á nýjum glæsilegum velli. Það var hetjuleg framganga Víkinga sem komust áfram í Sambandsdeildinni og skráðu nafn sitt í sögubækur með besta árangur íslenskra liða; 2 sigrar, 2 jafntefli og 2 töp, 8 stig. Þeir unnu Cercle Brugge frá Belgíu, einni sterkustu deild Evrópu, unnu Banja Luka frá Bosníu og gerðu jafntefli í Tiblisi og Linz. Hlutu jafnmörg stig og FCK Kaupmannahöfn, stigi meir en Molde frá Noregi. Þeim mun merkilegra að Víkingar söknuðu máttarstólpa; Vatnhamars, Arons Elís, Pablo og misstu Jón Guðna fyrir leikhlé. Þeir urðu að spila heimaleiki sína við dapurlegar aðstæður. Í fyrra náðist ekki stig á þessum vettvangi. Nafn Arnars Gunnlaugssonar er skráð gylltu letri sem einn besti þjálfari íslenskrar knattspyrnusögu. Víkingsliðið undir hans stjórn eitt besta lið íslenskrar knattspyrnusögu.
Barátta Víkinga við Djurgarden í roki og rigningu verður í minnum höfð þar sem úrslit gátu ráðist á hvorn veg sem var. Víkingar óheppnir að setja ekki mark í fyrri hálfleik. Við fengum að sjá hversu stór klúbbur Djurgarden er þegar svíarnir rúlluðu yfir Legia Varsjá, aðstöðumunur tröllvaxinn. Nú mætum við Panathinaikos frá Aþenu á Olympíuleikvanginum í Aþenu í febrúar. Sett í samhengi verða Víkingar í hlutverki Davíðs gegn Golíat; félag sem lék til úrslita í Evrópukeppni meistaraliða vorið 1971 undir stjórn Puskas! Glíman við Grikkina verður ógleymanleg reynsla, Panathinaikos stofnað sama ár og Víkingur 1908. Til hamingju Víkingur.
Athugasemdir
Víkingar eru hetjur og Arnar er snillingur. Víkingshjarta þitt er ekki eina hjartað sem óskar þeim allt hið besta. Það standa allir með Víking.
Sigurður I B Guðmundsson, 20.12.2024 kl. 18:06
Arnar Gunnlaugsson hlýtur að hlýtur að verða útnefndur sem næsti landsliðsþjálfari í ljósi frábærs árangurs og þeirrar virðingar sem hann hefur áunnið sér.
Jónatan Karlsson, 21.12.2024 kl. 03:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.