23.10.2023 | 21:57
Enn af læknamistökum í Orkuhúsinu ...
Brottnám viðbeins viðgengst á Orkuhúsinu, stærstu einkaklínik landsins en hefur verið aflagt á Norðurlöndum vegna vafasamra aukaverkana. Á þetta benti læknir skipaður af Landlækni til að veita umsögn. Læknirinn sem starfar í Svíþjóð benti á stóra norska rannsókn sem véfengir gildi þessara aðgerða og fleiri rannsóknir gefi sömu niðurstöðu. Læknar Orkuhússins kváðust vita af norsku rannsókninni en það breytti ekki afstöðu þeirra að saga af viðbeini fólks. Í janúar 2018 rúmu ári eftir að sagað var af viðbeini mínu kom fram í rannsókn sem fram fór á röntgendeild Orkuhússins að meginsin vinstri axlar er slitin frá festum og rifin endilöng:...stór fullþykktar rifa í supraspinatus sininni og virðist sem maður sjái sinina um 2sm frá festunni. Undirliggjandi er afsagað viðbein sem er grafalvarlegt. Læknar Orkuhússins kveða þetta smávægilega áverka. En það er langur vegur frá og sjúklingur var afvegaleiddur. Ég lagði til við Landlækni að máli mínu yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sumsé lögreglu en það var ekki gert. Orkuhúsið kvað sinina smávægilega degenerativa; sem sagt hrörnunarrifu en ekkert slíkt hafði komið fram fyrir aðgerðina 12. október 2016.
Það var ekki fyrr en í mars 2021 að ég, sjúklingurinn fékk réttar upplýsingar um sundurtætta sinina en það var í rannsókn í Domus Medica eftir að málinu hafði verið vísað til Landlæknis. Þá hafði Orkuhúsið vitað í þrjú ár af tættri sininni við afsagað viðbeinið. Ég upplýsti Landlækni og alla stjórnarmenn Orkuhússins um þessa atburði og trúnaðarbrestinn en var svarað með þögn. Afsagað viðbein og sundurtætt sin er grafalvarleg staða fyrir einstakling með alla mína áverka. Raunar var það ótrúleg gjörð að saga af viðbeini einstaklings sem 50 árum áður hafði kinn- og brjóstbeinsbrotnað í slysi, skaddast á hryggjarliðum auk þess sem rætur framtanna höfðu brotnað og verið rótfylltar. Ofan á allt með dupuytren í líkama. Læknirinn í Svíþjóð benti Landlækni á að ekkert í gögnum máls gæfi tilefni til að álykta ég hefði verið upplýstur um að til stæði að saga af viðbeini mínu. Landlæknir gerði ekkert með þá ábendingu, fremur en að sjúklingi með alvarlegar aukaverkanir var vísað af sjúklingaskrá. Þetta verður eiginlega ekki svartara. Við lifum tíma þar sem kerfið hylmir yfir með hinum ríku og voldugu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.