Þegar Friðrik Ólafsson varð þjóðhetja

Friðrik Ólafsson varðaði veginn á fyrstu árum lýðveldisins með glæstum sigrum á hvítu reitunum og svörtu. Þjóðhetja svo erfitt er fyrir fólk að skynja og skilja nú á dögum. Líklega hefur enginn Íslendingur hrifið íslenska þjóð sem Friðrik Ólafsson. Öll þjóðin fylgdist með afrekum hans og beið úrslita í ofvæni. Sjónvarpið sýnir nú tvær heimildamyndir um Friðrik Ólafsson eftir Jón Þór Hannesson. Helgi Ólafsson stórmeistari hefur skrifað magnaða ævisögu Friðriks.

Friðrik hampaði Íslandstitli 1952, aðeins 17 ára gamall og varð Norðurlandameistari ári síðar. Friðrik bjó yfir leiftrandi hæfileikum; sókndirfsku, djúpum fléttum, óvæntum leikjum svo áhorfendur tóku andköf. Tvítugur titillaus stúdent frá Íslandi sló í gegn í Hastings á Englandi um áramótin 1955-56. Þá einu alfrægasta skákmóti heims. Ungi Íslendingurinn var óskrifað blað þar sem hann atti kappi við heimsfræga stórmeistara. Spekingar spáðu fyrir mótið, töldu hinn júgóslavneska Ivkov eða Sovétmennina Taimanoiv og Korchnoi líklega til sigurs. Engum datt í hug að tvítugur strákur frá Íslandi ætti möguleika gegn svo öflugum stórmeisturum. Spekingar settu Friðrik ekki á blað.

En Friðrik varð efstur. „Sigur Friðriks skipar honum við hlið beztu skákmanna heims,” var fyrirsögn Morgunblaðsins yfir þvera forsíðuna. Símar ritstjórnar loguðu linnulaust og skákskýringar Guðmundar Arnlaugssonar í hádegisútvarpinu voru afar, afar vinsælar. Hvert mannsbarn hlustaði á og las fréttir frá Hastings.

Friðrik Ólafsson

    Þjóðhetju fagnað á Reykjavíkurflugvelli

Mikið fjölmenni tók á móti Friðriki á Reykjavíkurflugvelli við komuna til landsins. Ræður voru fluttar, skákmeistari hylltur – þjóðin tók á móti þjóhetju sinni. Og Sigurður heitinn Sigurðsson, hinn vinsæli fréttamaður Útvarpsins, var þá á vettvangi sem endanær þegar Frirðik snéri heim frá glæstum sigrum í útlöndum. Þjóðin þekkti ávarpsorð hans „kom’iði sæl” og komst í gott skap. „Segðu mér, Friðrik …”

Áður en Friðrik fór til Hastings í lok árs 1955 hafði hann orðið efstur á Norðurlandamótinu í skák. Nokkrum dögum eftir komuna heim hóf Friðik einvígi sitt við Bent Larsen í Sjómannaskólanum. Þar var ávallt fullt út úr dyrum og færri komust að en vildu. Þjóðin fylgdist með viðureigninni við Danann af lífi og sál. Larsen náði tveggja vinninga forystu en Friðrik jafnaði metin með tveimur glæstum sigrum. Þeir tefldu úrslitaskák, Friðrik lenti í æsilegu tímahraki og tapaði. Líklega hafði liðið of skammur tími milli móta.

Friðrik Ólafsson Moggi

Þá var ég tæpra fimm vetra. Við Friðrik erum systkinabörn. Faðir minn, Hallur Símonarson, hsím þá á Tímanum síðar einn stofnenda Dagblaðsins, var ágætur skákmaður og afar snjall bridgespilari. Margfaldur Íslandsmeistari og landsliðsmaður. Mínar fyrstu bernskuminningar eru frá einvíginu í Sjómannaskólanum. Friðrik fór á millisvæðamót í Portoroz í Júgóslavíu og hafnaði í 5-6. sæti, vann þar meðal annars Bobby Fischer. Friðrik hafði skipað sér á bekk þeirra bestu til þess að skora á heimsmeistarann Mikhail Botvinnik. Hann var útnefndur stórmeistari 1958, 23 ára. Friðrik Ólafsson bar höfuð og herðar yfir aðra Íslendinga að vinsældum.

     Þegar Rússar snérust gegn Friðriki

Þegar ég hóf störf á Morgunblaðinu 1979  hafði Friðrik Ólafsson verið forseti FIDE, alþjóða skáksambandsins í eitt ár. Ég fékk það hlutverk að halda utan um skákfréttir. Skák var stórmál á Mogganum. Friðrik þurfti að taka á erfiðum málum í forsetatíð sinni – ekki síst máli stórmeistarans Viktors Korschnoi. Í tíð Friðrik tók Fide upp málstað mannréttinda og Korschnoi. Þing Alþjóðaskáksambandsins var haldið í Luzern í Sviss árið 1982. Þá kom Friðrik til endurkjörs og ég var blaðamaður Morgunblaðsins. Andstæðingur Friðriks í baráttunni um embætti forseta var Filipseyingurinn Campomanes. Sovétmenn hefndu sín og snérust gegn Friðriki. Ógleymanlegt þegar þau tíðindi spurðust á þinginu í Sviss að Brezhnev Sovétleiðtogi væri allur og þingheimur reis úr sætum til að hylla hinn látna leiðtoga.

Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að flytja þjóðinni fréttir af frækilegum sigri Jóhanns Hjartarsonar við Viktor Korschnoi í St. John í Kanada þegar ég var á Sjónvarpinu. Friðrik aðstoðaði Jóhann við undirbúninginn, var í St. John ásamt Margeiri Péturssyni og Helga Ólafssyni. Þjóðin fylgdist með hinum unga Jóhanni í glímunni við rússnesku goðsögnina. Ég fór sem fréttamaður Sjónvarps til Seattle þegar Jóhann tefldi við Anatoly Karpov í átta manna úrslitum um réttinn til að skora á Garri Kasparov. Karpov reyndist okkar manni ofjarl, en svona nálægt en samt svo fjarri var Íslendingur frá heimsmeistaratign árið 1989.

Friðrik stytta


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þökk fyrir Hallur. Þetta er afar fróðleg og skemmtileg frásögn, sem rifjar upp þær minningar sem við eigum sameiginlega og erum stolt af.

Guðmundur Örn Ragnarsson (IP-tala skráð) 10.1.2023 kl. 19:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband