Í minningu Matthíasar Johannessen

Matthías Johannessen var fremstur og áhrifamestur íslenskra blaðamanna 20. aldar. Hann hóf blaðamennsku 1951 varð ritstjóri 1959 og skilaði Morgunblaðinu áhrifamestu íslenskra dagblaða á pari við vestræn stórblöð við lok aldamótaársins 2000 þegar Ísland hélt út á ólgusjó nýrrar aldar. Ég hóf störf á Morgunblaðinu 1979, hafði átt því láni að fagna að vera meðal stofnenda  Dagblaðsins 1975 með föður mínum Halli Símonarsyni hsím, Jónasi Kristjánssyni og fleira góðu fólki. Þegar mér stóð til boða að fara á Moggann sagði hsím umsvifalaust; stökktu. 

Það var gæfuspor að fara á Morgunblaðið og vinna með Matthíasi og Styrmi heitnum Gunnarssyni ásamt afburðafólki sem  skóp blaðið frá degi til dags. Enginn einn maður hefur haft jafn mikil áhrif á mig og Matthías. Hugleiðingar hans á ritstjórnarfundum voru brunnur djúprar visku og speki. Ég nam hvert orð og geymdi í hjarta mínu. Ég átti mína fingurbrjóta, skrifaði viðtal sem stóð engan veginn undir kröfum. Sem betur fer þá fór það ekki í gegn því sívakandi Matthías sá áður en blaðið fór í prentun. Árni Jörgensen kom til mín og kvað Matthías miður sín eftir að hafa lesið ósköpin. Mér var brugðið og hét sjálfum mér að bregðast Matthíasi aldrei aftur, aldrei. Ég tók sjálfan mig í gegn. Matthías mótaði mig sem blaðamann, kenndi mér að rýna og greina. Ég vann náið með ritstjóra mínum fréttir um "októberdrengina" á Akureyri; tengsl hangikjöts og sykursýki. Eftir það var ekki litið til baka.

Ferill minn á Mogganum varð farsæll. Þegar gerð voru mistök þá undanbragðalaust voru þau leiðrétt fyrir fólkið í landinu að sjá. Sannleiksandi Matthíasar var óskeikull kompás okkar allra. Guð blessi minningu Matthíasar Johannessen. Ég votta fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

Hallur Hallsson

Morgunblaðið 04.04 2024.


Bloggfærslur 5. apríl 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband