20.12.2024 | 15:23
Sögulegur árangur Víkings í Evrópu ...
Víkingar sýndu styrk sinn þegar þeir gerðu jafntefli í Linz 1-1 við Lask eitt besta lið Austurríkis á nýjum glæsilegum velli. Það var hetjuleg framganga Víkinga sem komust áfram í Sambandsdeildinni og skráðu nafn sitt í sögubækur með besta árangur íslenskra liða; 2 sigrar, 2 jafntefli og 2 töp, 8 stig. Þeir unnu Cercle Brugge frá Belgíu, einni sterkustu deild Evrópu, unnu Banja Luka frá Bosníu og gerðu jafntefli í Tiblisi og Linz. Hlutu jafnmörg stig og FCK Kaupmannahöfn, stigi meir en Molde frá Noregi. Þeim mun merkilegra að Víkingar söknuðu máttarstólpa; Vatnhamars, Arons Elís, Pablo og misstu Jón Guðna fyrir leikhlé. Þeir urðu að spila heimaleiki sína við dapurlegar aðstæður. Í fyrra náðist ekki stig á þessum vettvangi. Nafn Arnars Gunnlaugssonar er skráð gylltu letri sem einn besti þjálfari íslenskrar knattspyrnusögu. Víkingsliðið undir hans stjórn eitt besta lið íslenskrar knattspyrnusögu.
Barátta Víkinga við Djurgarden í roki og rigningu verður í minnum höfð þar sem úrslit gátu ráðist á hvorn veg sem var. Víkingar óheppnir að setja ekki mark í fyrri hálfleik. Við fengum að sjá hversu stór klúbbur Djurgarden er þegar svíarnir rúlluðu yfir Legia Varsjá, aðstöðumunur tröllvaxinn. Nú mætum við Panathinaikos frá Aþenu á Olympíuleikvanginum í Aþenu í febrúar. Sett í samhengi verða Víkingar í hlutverki Davíðs gegn Golíat; félag sem lék til úrslita í Evrópukeppni meistaraliða vorið 1971 undir stjórn Puskas! Glíman við Grikkina verður ógleymanleg reynsla, Panathinaikos stofnað sama ár og Víkingur 1908. Til hamingju Víkingur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)