6.9.2023 | 11:34
Don Quixote með heimilisfesti í Kópavogi?
Það verður ekki annað sagt en vængstýfðir Blikar hafi klæðst brynju Don Quixote og slegist við vindmyllur þegar kemur að Íslandsmótinu í sumar. Sérlega hafa Víkingar farið í taugarnar á grænum Blikum sem ekki nýttu búningsaðstöðu í Víkinni á dögunum því hún væri ljóslaus og illa lyktandi, svo sem Gummi Ben upplýsti í Stúkunni á Stöð 2. Búningsaðstaðan hefði verið Blikum ósamboðin. Blikar hituðu því upp í Kópavogi, skiluðu leikskýrslu og mættu seint í Víkina til þess að ...mótmæla á táknrænan hátt, segir á heimasíðu Blika. Víkingar unnu ungt og flott lið Blika 5-3. Blikahöfundur skrifar að ...föst leikatriði heimapilta og mistök dómaratríósins [hafi orðið] Blikaliðinu að falli ... Einn lítill Víkingur [Danijel Djuric innsk. HH] skoraði mark en hann var svo rangstæður að jafnvel rangeygðustu menn sáu það. Danijel einn efnilegasti leikmaður landsins uppalinn í Kópavogi hefur þroskast vel undir handleiðslu Arnars þjálfara.
VETTVANGSKÖNNUN DV
Víkingar svöruðu ekki aðfinnslunum Blika en fréttamaður DV fór í vettvangskönnun í Víkina, kveikti ljós og fann enga vonda lykt. Kári Árnason sagði í viðtali við DV að aðstaðan í Víkinni ...væri bara eins og á Laugardalsvelli; strípuð og old school. Af þessu tilefni má nefna að Víkingar gerðu samninga um hina farsælu uppbyggingu í Fossvogi fyrir 50 árum og vígðu Víkina árið 1991. Sjálfsagt er kominn tími til að taka næstu skref. Spyrja má hvort Blikar sætti sig við búningsklefa Ísfirðinga fari svo að Vestri fari upp í Bestu deild eða hvort Skagamenn hafi endurnýjað klefa nýlega? Bara spyr.
Óskar Hrafn Blikaþjálfari fór niðrandi orðum um Evrópuárangur Víkinga sem væri ekki sambærilegur Blika en þar er hann sjálfsagt að vísa til Evrópusigra Blika á Tre Tenne, Budoconos, Shamrock Rovers og Struga. Þegar Blikar loks mættu til leiks tók Óskar ekki í hönd Arnars Víkingsþjálfara, að sögn Stöðvar 2. Á trofullum Heimavelli hamingjunnar sáu Blikar Víkinga afhenda Ljósinu, stuðningsamtökum krabbameinssjúkra, þriggja milljón króna ávísun ágóða af góðgerðatreyju til minningar um tónlistarmanninn Svavar Pétur Eysteinsson betur þekktan Prins Póló sem féll frá í september 2022 eftir harða baráttu við krabbamein. Fjölskyldan býr í Fossvogi. Treyjan hafði selst upp á nokkrum klukkstundum áletruð Nú! er góður tími. Kóróna Prinsins er fyrir ofan Víkingsmerkið.
HARMAKVEIN AÐ ÁRI?
Blika-höfundur vitnar í Halldór Laxness: Minn herra á aungvan vin. Með þremur synjunum KSÍ að fresta Víkingsleiknum hafi Blikar skapað vesen fyrir KSÍ og félög í Bestu deild og gætir biturðar í skrifum en höfundur kallar aðdraganda leiksins farsa og kveður Víkinga koma sér í ...einhver kjánaleg sjálfskaparvíti án þess að útskýra nánar. Vandséð er hvað hann á við. Víkingur er á þröskuldi Íslandstitils og í úrslitum Bikarsins við sterkt lið KA. Að loknum 22 leikjum í Bestu eru Blikar 21 stigi á eftir Víkingi. Hinn bókvísi Bliki hefur svo í hótunum við Víkinga: Áhugavert verð[ur] að heyra harmakveinin úr Fossvoginum þegar þeir röndóttu verða hugsanlega í sömu stöðu og við eftir ár! Svo mörg voru þau orð. Við lestur Blikasíðu skilst af hverju Ungmennafélagið Breiðablik hefur ekki beðist afsökunar á ummælum Óskars Blikaþjálfara fyrr í sumar þess efnis að Víkingar séu fávitar og Höskuldur fyrirliði uppnefndi Víkinga geltandi hunda. Er Don Quixote kominn með heimilisfesti í Kópavogi?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)