25.9.2023 | 23:51
Víkingur Íslandsmeistari 2023 - Fimm titlar á þremur árum
Víkingur varð Íslandsmeistari 2023 um helgina eftir að KR og Valur gerðu jafntefli 2-2 í Vesturbænum. Víkingar urðu sófameistarar en spiluðu sinn lakasta leik í sumar gegn Breiðabliki. Fjölmenn stuðningssveit Víkinga lét það ekki á sig fá og hyllti meistarana. Augljóst spennufall líkt og gerist þegar titill er í höfn. ManCity vann alla leiki eftir áramót og varð sófameistarari en vann ekki leik í deildinni eftir það, svo Víkingar þurfa að gæta sín. Blikar heiðursmenn þegar þeir stóðu heiðursvörð. Það var ánægjulegt að sjá eftir að þeir mættu of seint til leiks í Víkina á dögunum og voru sektaðir fyrir. Víkingur hefur sannlega safnað titlum undanfarin ár.
Eftir að tveir af bestu miðvörðum íslenskrar knattspyrnu, Kári Árnason og Sölvi Geir Ottesen snéru heim og Arnar Gunnlaugsson tók við þjálfun 2018 hefur Víkingur verið óstöðvandi. Unnið titil eftir titil eftir titil. Víkingsliðið er eitt besta lið Íslandssögunnar. Fimm titlar á þremur árum, sex af níu á fimm árum er stórbrotinn árangur.
2019: BIKARMEISTARAR
2021: ÍSLANDS- & BIKARMEISTARAR
2022: BIKARMEISTARAR
2023: ÍSLANDS- & BIKARMEISTARAR
Ævintýrið byrjaði með bikartitli 2019 eftir að slá út Blika í undanúrslitum í Víkinni 3-1. Bikarmeistarar fjórum sinnum í röð, unnu Blika í undanúrslitum 2022 í Fífunni 3-0. Valkyrjur Víkings heilluðu þjóðina, lögðu Blika í úrslitum Bikarsins á Laugardalsvelli; unnu tvöfalt 2023; Lengjudeild- og Bikar. Þær endurtóku leik Bikarmeistara karla frá 1971 sem unnu Breiðablik 1-0 í úrslitum á Melavelli og 2. deild með miklum yfirburðum. Magnaðar rimmur milli þessara nágranna í sögulegu ljósi.
Víkingur 108 Reykjavík
Nú eru 50 ár frá því Víkingar tóku ákvörðun að flytja í Fossvog undir forystu Jóns Aðalsteins Jónssonar heitins. Stjórn Antons Arnar Kærnested hóf framkvæmdir á níunda áratugnum. Árið 1991 var íþróttahúsið tekið í notkun og búningsaðstaða. Stúka í kjölfarið. Hins vegar kom það forystumönnum Víkings í opna skjöldu að Kópvogsbær bjó HK setur skammt frá í Fossvogi. HK óx og dafnaði sem eitt öflugasta íþróttafélag landsins. Jafnframt að borgaryfirvöld ákváðu að reisa Fram setur í Safamýri þar sem glæsilegt íþróttahús reis. Nú hins vegar eru þessi félög flutt. HK upp í Kóra og Fram í Úlfarsárdal.
Víkingur er eitt félaga í 108 Reykjavík, hefur tekið yfir Safamýrina og er landfræðilega með eitt besta félagssvæði íþróttafélaga á landinu og líklega með bestu forystusveit íþróttafélaga í landinu sem hefur sameinað 108 Reykjavík að baki Víkingi. Sannlega er framtíð Víkings björt og 50 ára væntingar forystumanna hafa ræst.
Bloggar | Breytt 26.9.2023 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)