8.10.2023 | 22:45
Metkóngar Víkings ...
Víkingar luku Íslandsmótinu með stæl 5-1 gegn silfurliði Vals í Víkinni á laugardag. Víkingur lauk Íslandsmótinu með nýju stigameti 66 stig. Liðið fékk 59 stig í 22 leikjum 19 2 1 með markatöluna 65-20. Það eru 2,68 stig í leik, 2,95 mörk skoruð í leik. Svona tölur hafa aldrei sést áður, met eftir met. Sjö stiga bæting frá fyrra meti en KR 2svar (2013, 2019) og Stjarnan (2014) höfðu náð 52 stigum. Bikarinn í Víkina í fjórða sinn í röð eftir 3-1 sigur á KA. Sannlega magnaður árangur. Til að kóróna sumarið þá unnu stelupurnar Bikarinn eftir 3-1 sigur á Blikum og Lengjudeildina. Þær endurtóku árangur karlaliðsins frá 1971 þegar Víkingur varð sigurvegari 2. deildar og vann Bikarinn eftir 1-0 sigur á Blikum á Melavelli. Hamingjan ríkti í Víkinni um helgina þegar Víkingar fögnuðu. Arnar Gunnlaugsson valinn þjálfari ársins með goðsögnum á Mount Rushmore og Birnir Snær Ingason leikmaður ársins.
SIGURGANGA Í EVRÓPU Í VÍKINNI
Það hefur gætt misskilnings um árangur Víkings í Evrópukeppnum og því jafnvel haldið fram að Evrópuför Víkings síðastliðin tvö ár hafi verið sneypuvör. Það er einfaldlega rangt. Víkingar hafa ekki tapað Evrópuleik á heimavelli í Víkinni í tvö ár. Víkingar hafa unnið meistaralið San Marínó 1-0 og Eistlands 6-1. Þeir gerðu jafntefli við sænsku meistarana í Malmö 3-3 í Víkinni, unnu New Saints meistara Wales 2-0 og loks Lech Poznan Póllandi, 1-0. Í ár unnu þeir núverandi meistara Riga frá Lettlandi 1-0 í Víkinni. Víkingar gerðu jafnfefli í Wales 0-0, töpuðu 3-2 í Malmö í dómaraskandal þegar Kristall Máni var rekinn útaf í stöðunni 1-1. Leikurinn í Póllandi fór í framlengingu 2-1, Poznan náði þá loks að knýja fram sigur. Víkingur tapaði einvíginu við Riga samtals 2-1. Sannlega sögulegur árangur.
MÁLAFERLI OG ÁFRÝJANIR
Annað sögulegt við Íslandsmótið eru málaferli sem hófust á sama tíma. Annars vegar kærur Vals fyrir dómstólum sem höfðu krafist þess að stórsigur Víkings á Hlíðarenda yrði ógiltur og stigin féllu Val í skaut. Ef Valur hefði náð að sölsa undir sig stigin sex þá hefði leikurinn í Víkinni um helgina verið hreinn úrslitaleikur um Íslandsskjöldinn. Dómur féll ekki fyrr en eftir að Víkingar urðu sófameistarar. Hins vegar áfrýjanir Blika um að fresta leik við Víking í Víkinni. KSÍ tók kröfu þeirra fyrir í þrígang og Blikar áfrýjuðu og áfrýjuðu. Breiðablik krafðist þess að Víkingur léki við Blika í landsleikjahléi án landsliðsmanna í aðdraganda úrslitaleiks Bikarsins. Til þess að láta fýlu sína í ljósi mættu Blikar of seint í Víkina og neituðu að nýta búningsklefa vegna meintrar fýlu. Blikar voru sektaðir fyrir tiltækið. Segja má að þarna hafi Blikar misst fókus í titilvörn sinni en þeir enduðu með tuttugu og fimm færri stig en meistarar Víkings og Valur ellefu stigum minna.
Bloggar | Breytt 9.10.2023 kl. 00:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)