Af erfiðu slysi í bernsku og læknamistökum í Orkuhúsinu

Þrettán ára drengur 1964 fékk ég erfiða byrjun í lífinu. Ég slasaðist illa á hjóli á hitaveitustokknum sem liggur um Bústaðahverfi. Ég var á mikilli ferð niður brekku undan vindi þegar göt birtust á stokknum. Ég gat forðast það fyrsta en ekki næstu göt, skall á stokknum og úti í móa. Ég stóð upp frá slysinu, hélt áfram för minni og drengurinn hélt áfram lífi sínu. Slysið hefur markað líf mitt og ég lifað með verkjum allar götur síðan. Löngu síðar kom í ljós að drengurinn hafði brjóstbeins- og kinnbreinsbrotnað, hryggjarliðir 7-9 fleygmyndast, undir hryggjarliðunum erfitt bakflæði. Framtennur mínar urðu svartar, ræturnar brotnuðu og voru rótfylltar.  Þannig var líkami drengsins skorðaður.

Samt skapaði drengurinn sér nafn í fremstu röð blaða- og fréttamanna, meðal stofnenda Dagblaðsins 1975, vann á Morgunblaðinu 1979-1986, Sjónvarpinu 1986-9 og Stöð 2 1989-1994. Drengurinn hætti að æfa fótbolta í yngri flokkum, hætti Moggaboltanum 20 árum síðar, reyndi golf en varð að hætta vegna verkja og stundaði gufu af eldmóð. Þegar ég var með mín stóru mál þá var líkt og líkaminn væri sem í skrúfstykki svo ég hætti fréttamennsku eftir áratug í sjónvarpi. Það var vindingur upp til höfuðs og ég átti til að fá mígreni og sjóntruflanir upp úr fimmtugu. Ég lærði að slaka á og vinna með orkuna. Ég sumsé lærði að lifa lífi mínu þó með verkjum væri og fúnkeraði bara ágætlega, takk fyrir.

 

ÖRLAGARÍK LÆKNAMISTÖK

Nú í október eru sjö ár liðin síðan verkir urðu að óbærilegri þjáningu. Í október 2016 – fimmtíu árum eftir rótfyllinguna – gekkst ég undir aðgerð í Orkuhúsinu þegar til stóð að skafa vinstri axlarhyrnu. Í þess stað var sentimeter sagaður af vinstra viðbeini að mér forspurðum. Óskiljanleg ákvörðun lækna og afdrifarík læknamistök gerð í Orkuhúsinu sem er stærsta einkaklíník landsins. Í kjölfarið slitnaði meginsin axlar og rifnaði endilöng; tættist í sundur:  „...stór fullþykktar rifa í supraspinatus sininni og virðist sem maður sjái sinina um 2sm frá festunni,“ samanber rannsókn 10. janúar 2018 í Orkuhúsinu. Sama niðurstaða aftur í mars 2021 í Domus. Vinstri öxl mín er mjög löskuð. Sinin sem um ræðir tengir viðbein út í öxl, undir er gat, kring um það er sundurtætt sin. Líkaminn hafnaði inngripi lækna Orkuhússins. Þetta hefur áhrif á daglegt líf mitt, erfitt með svefn þannig get ég ekki sofið á vinstri hlið eða maga svo staðan er erfið skal ég segja ykkur.


Bloggfærslur 18. október 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband